Undirritaður hefur verið samningur á milli Kraftvéla og Véltinda um að Véltindar taki við umboði fyrir Iveco atvinnubíla og sjái um sölu og þjónustu á þeim frá og með 4. janúar 2021.
Kraftvélar hafa selt Iveco atvinnubíla frá 2012 og hafa þeir notið sívaxandi vinsælda á undanförnum árum með breiðri vörulínu allt frá sendi- og pallbílum til stærri flutninga- og vörubíla.
Þjónusta og sala Iveco flyst til Véltinda við Klettagarða 12 þar sem Véltindar reka söluskrifstofu og varahlutaverslun auk þess sem öflugt þjónustuverkstæði fyrir Iveco er rekið í sama húsnæði á vegum Vélrásar.
Véltindar munu taka yfir ábyrgðarskuldbindingu þeirra Iveco bíla sem eru í verksmiðjuábyrgð ásamt því að taka við öllum þjónustusamningum vegna Iveco bíla sem nú eru í gildi við Kraftvélar auk þess að flytja inn og afhenda þá bíla sem nú þegar eru í pöntun frá verksmiðjum Iveco.
Að auki munu Véltindar yfirtaka allt frá Kraftvélum sem tilheyrir Iveco atvinnubifreiðum en þar ber helst að nefna alla nýja Iveco bíla á lager, alla Iveco varahluti og öll Iveco sérverkfæri.
Ívar Þór Sigþórsson, sölustjóri Iveco hjá Kraftvélum, er Iveco eigendum vel kunnugur og mun færa starfskrafta sína yfir til Véltinda samhliða þessum breytingum.
„Kraftvélar munu einbeita sér að vaxandi umsvifum í sölu á Komatsu vinnuvélum, Sandvik námutækjum og Toyota lyfturum ásamt landbúnaðartækjum frá New Holland, Case IH, Pöttinger, Weidemann og fleiri framleiðendum“ segir Viktor Karl Ævarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Kraftvéla.
„Við höfum átt farsælt samstarf við eigendur Iveco bíla á liðnum árum og það hefur verið gaman að fylgjast með stöðugri aukningu í sölu á Iveco bílunum hér á landi á undanförnum árum. Okkur líður vel að vita að nýtt heimili Iveco leggur höfuðáherslu á góða þjónustu, rétt eins og við höfum reynt að gera í gegnum árin“ segir Viktor einnig.
„Okkur finnst mikill fengur að fá Iveco atvinnubílana til okkar og þeir passa vel í það vöruframboð og fjölþætta þjónustu við atvinnubíla sem þegar er til staðar hjá okkur í Klettagörðum 12.
Við höfum góðan hóp fagfólks í okkar röðum sem hlakkar til að fá jafn trausta og öfluga atvinnubíla í vöuframboðið hjá okkur og Iveco er“ segir Salómon Viðar Reynisson, framkvæmdastjóri Véltinda.
Um Kraftvélar:
Kraftvélar hafa selt Komatsu vinnuvélar í tæp 30 ár og hafa byggt upp yfirgripsmikla þekkingu á sviði jarðvinnuvéla. Að auki eru Kraftvélar umboðsaðili fyrir Toyota lyftara sem hafa löngu sannað ágæti sitt á íslenskum markaði. Toyota er stærsti framleiðandi lyftara í heiminum og býður heildarlausn í lyfturum fyrir vöruhús, sjávarútveg og almenna vörumeðhöndlun. Þá er sala á landbúnaðartækjum og þjónusta við bændur vaxandi í starfsemi Kraftvéla á hverju ári.
Um Véltinda:
Véltindar ehf er nýtt fyrirtæki sem stofnað var til þess að taka við því góða starfi sem Kraftvélar hafa unnið í þágu Iveco vörumerkisins á liðnum árum. Hið nýja fyrirtæki byggir á góðum grunni starfsmanna sem hafa áralanga reynslu af sölu og þjónustu á atvinnubílamarkaði. Fyrirtækið starfar með öflugum þjónustuverkstæðum Vélrásar á höfuðborgarsvæðinu auk annara á landsbyggðinni. Véltindar leggja áhersu á að geta boðið heildstæðar lausnir til rekstraraðila í hverskyns vöruflutningum og hafa því einnig opnað nýtt umboð fyrir hina Þýsku Krone eftirvagna.
Nánari upplýsingar um Véltinda má nálgast á heimasíðu fyrirtækisins www.veltindar.is.